Minnst fjórir íslenskir lífeyrissjóðir koma nýir inn í hluthafahóp Play eftir hlutafjárútboð félagsins þó að hlutdeild þriggja þeirra verði fremur lág, samkvæmt svörum við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Átján lífeyrissjóðir af tuttugu svöruðu fyrirspurninni en ekki bárust svör frá tveimur stærstu sjóðunum, LSR og LIVE.

Tólf lífeyrissjóðir ákváðu að taka ekki þátt í útboðinu og Festa tók þátt en fékk ekki úthlutun. Frjálsi lífeyrissjóðurinn keypti 240 milljóna króna hlut í Play, Lífeyrissjóður bankamanna og Lífeyrissjóður bænda fengu hvort um sig 25 milljóna króna hlut og LSRB fékk 15 milljóna króna hlut. Birta og Lífsverk voru fyrir í hluthafahópnum eftir að hafa tekið þátt í útboði félagsins í apríl.

Birta tók ekki þátt að þessu sinni en 8,6% hlutur Birtu í Play er um 1,2 milljarða króna virði miðað við útboðsgengið. Þá fékk Lífsverk einungis 1,25 milljóna króna hlut úthlutað til viðbótar en eftir útboðið er 2,9% hlutur Lífsverks í Play um 400 milljóna króna virði. Áttföld eftirspurn var í útboðinu og alls bárust boð upp á 33,8 milljarða króna í um fjögurra milljarða hlut í félaginu. Um 4.600 skráðu sig fyrir hlutum í félaginu og skerða þurfti áskriftir við 280 þúsund krónur vegna áhugans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .