Fjárfestahópur undir forystu meirihluta starfsmanna Netbókhald.is hefur keypt allt hlutafé í Netbókhald.is ehf., eftir að hafa átt hæsta tilboð í félagið að undangengnu söluferli.

Seljandi er Glitnir Eignarhaldsfélag ehf. sem heyrir undir skilanefnd gamla Glitnis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka var ráðgjafi seljanda.

Þar kemur fram að söluferli félagsins hófst 7. janúar sl. og var haft samband við fagaðila í þessum atvinnugeira og áhugi þeirra á félaginu kannaður. Níu aðilar skiluðu inn óskuldbindandi tilboðum og þeir aðilar sem stóðu á bakvið fimm hæstu tilboðin fengu að halda áfram í söluferlinu og gera bindandi tilboð.

Tilboð fjárfestingahóps meirihluta starfsmanna reyndist hæst þeirra bindandi tilboða sem bárust og í kjölfarið var samið við þá um kaup á félaginu. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Netbókhald.is var stofnað árið 2000 og býður upp á fjárhags-, sölu- og launakerfi á veraldarvefnum. Hjá félaginu starfa sex manns.