Nærri sjö af hverjum tíu aðspurðra telja ferðaþjónustu vera nokkuð mikilvæga í efnahagslífi landsins og tæplega þriðjungur segir hana vera undirstöðuatvinnuveg. Afar fáir, eða 2%, telja ferðaþjónustu vera léttvæga eða skipta engu máli. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Ferðamálastofu.

Karlar telja frekar en konur að greinin sé undirstöðuatvinnugrein.

Þá telja tveir af hverjum þremur aðspurðra að fjöldi ferðamanna sé hæfilegur hér á landi á sumrin. 29% telja að fjöldinn sé of mikill og 6% að hann sé of lítill. Tæplega helmingur aðspurðra var þeirrar skoðunar að fjöldi ferðamanna að vetri til sé of lítill, tæplega helmingur segir fjöldann hæfilegan og þrjú prósent telja hann of mikinn.

Könnunin er liður í rannsóknarverkefni um samfélagsleg þolmörk sem Ferðamálastofa, Rannsóknamiðstöð ferðamála og Háskólinn á Hólum standa að. Könnunin var gerð í síma dagana 2. október til 3. nóvember. 2000 manna úrtak var valið úr þjóðskrá og svarhlutfall var 59%.