Sex af hverjum tíu telja uppbyggingu ferðaþjónustu vera of hæga miðað við fjölgun ferðamanna. Þetta kemur fram í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Ferðamálastofu, og var kynnt í gær.

Fimmtungur aðspurðra telur að uppbyggingin sé í takt við fjölgun ferðamanna og 13% telja uppbyggingu of hraða.

Þá segjast 75 prósent telja að hið opinbera hafi ekki skýra framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu. 17 prósent telja að stjórnvöld hafi að hluta til skýra framtíðarsýn en 9 prósent telja framtíðarsýnina skýra.

Skiptar skoðanir voru meðal aðspurðra um það hvort ríkið eigi að efla landkynningu til að fá fleiri ferðamenn til landsins. Helmingur er því sammála en 43 prósent ósammála.

Könnunin er hluti af viðameiri rannsókn á viðhorfum til ferðaþjónustu og stöðu Íslands sem áfangastaðar. Hún var símakönnun og hringt var í 2000 manns. Svarhlutfall var 59%.