Sextíu og tvö prósent þeirra sem afstöðu taka eru andvíg því að bjór og léttvín verði selt í matvöruverslunum. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar Fréttablaðsins, Vísis og Stöðvar 2. Hins vegar eru 38 prósent fylgjandi því að áfengi verði selt í búðum. Andstaðan er meiri á meðal fólks yfir fimmtugu en yngra fólks. Hún er líka meiri meðal kvenna. Sömu spurningar var spurt í mars í fyrra og hefur andstaðan við sölu léttvíns og bjórs í matvörubúðum aukist frá þeim tíma.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp um afnám einkasölu ríkisins á áfengi. Hann segir niðurstöðurnar ekki koma sér á óvart miðað við hvernig spurt sé, en gerir athuga semd við orðalag spurningarinnar. „Þið spyrjið alltaf um matvöruverslanir, sem eru þannig lagað hvergi nefndar í frumvarpinu. Þeim verður heimilað að selja þetta en þetta er ekki bara miðað að þeim.“