Meirihluti þjóðarinnar, eða 57%, vill ekki að eftirlaunaaldurinn á Íslandi verði hækkaður samkvæmt nýrri könnun sem Prósent gerði í maí.

Í könnuninni var fólk spurt hversu jákvætt eða neikvætt það var gagnvart því að almennur eftirlaunaaldur á Íslandi yrði hækkaður úr 67 árum í 70 ár.

Samkvæmt niðurstöðum voru 57% mjög eða frekar neikvæð gagnvart því að hækka eftirlaunaaldurinn, 21% tóku ekki afstöðu og 22% voru annaðhvort mjög eða frekar hlynnt því að hækka eftirlaunaaldurinn.

Marktækur munur var á milli aldurs og kyn en svarendur í aldurshópnum 18-24 ára voru almennt neikvæðari fyrir því að hækka eftirlaunaaldur en þeir sem voru eldri. Einnig voru fleiri karlmenn, eða 60%, sem sögðust ekki vilja ekki vilja sjá hækkun á móti 53% kvenna.

Athyglisvert var að sjá hve mikill munur var á andstöðu þeirra sem voru 55-64 ára og þeirra sem eru 65 ára eða eldri. Meðal hins fyrrnefnda aldurshóp voru 62% á móti hækkun eftirlaunaaldurs en sú tala lækkaði niður í 50% þegar þeir sem voru 65 ára eða eldri voru spurðir.