Í nýrri könnun Fréttablaðsins kemur fram að um það bil helmingur landsmanna vill heimila frjálsan innflutning á landbúnaðarvörum.

Þannig svöruðu 47% spurningunni játandi, 42% svöruðu neitandi, 9% voru óákveðin og 2% svöruðu ekki spurningunni. Ef einungis eru skoðuð svör þeirra sem tóku afstöðu til málsins sögðust 53% vilja heimila frjálsan innflutning á landbúnaðarvörum en 47% voru á móti.

„Ég hefði haldið að miðað við þunga einhliða umræðu þá væru fleiri sem vildu þetta svokallaða frelsi,“ segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum formaður Bændasamtakanna, í samtali við Fréttablaðið. Segir hann einnig að það hafi lítið komist að í umræðunni að meirihlutinn af matvörunni sem Íslendingar kaupi sé tolllaus erlend búvara.

Pétur Alan Guðmundsson, kaupmaður í Melabúðinni, segir hins vegar að niðurstöðurnar séu í samræmi við það sem hann átti von á. Bendir hann á að fjölgun ferðamanna hafi leitt af sér mikla neyslu á kjöti sem markaðurinn ráði ekki lengur við.