*

föstudagur, 19. júlí 2019
Erlent 30. júlí 2018 14:04

Meirihluti vill kjósa um Brexit-samning

Meirihluti Breta vill kjósa milli Brexit-samnings May, útgöngu án samnings, og áframhaldandi veru í ESB.

Ritstjórn
Bretum finnst Theresa May ekki standa sig ýkja vel þessa dagana.
epa

Samkvæmt skoðanakönnun sem Sky News fréttastofan lét framkvæma hefur viðhorf Breta til Brexit versnað töluvert frá síðustu könnun í mars, og meirihluti þeirra sem taka afstöðu vilja nú þjóðaratkvæði um niðurstöðu samningaviðræðnanna. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðargreiðslu yrði samkvæmt skoðanakönnuninni sú að Bretland snéri baki við Brexit og yrði áfram í ESB.

Þá telja 78% ríkisstjórnina standa sig illa í Brexit-samningunum, 23% fleiri en í mars, á meðan 10% telja hana standa sig vel, sem eru 13% færri en í mars. Aðeins fjórðungur er ánægður með frammistöðu Theresu May sem forsætisráðherra, en 3 af hverjum 4 eru óánægðir. Í mars voru 60% óánægðir en 40% ánægðir.

Tveir þriðju telja samninginn munu verða slæman fyrir Bretland, þar með talið helmingur þeirra sem kusu með útgöngu, og aðeins 14% telja hann munu verða góðan.

42% telja áhrif Brexit á sig persónulega verða neikvæð, en 31% telja áhrifin verða jákvæð. 18% telja Brexit ekki munu hafa áhrif á sig persónulega. Rúmur helmingur telur bæði efnahagsleg og almenn áhrif Brexit verða neikvæð. Rúmur þriðjungur telur Brexit verða jákvætt fyrir hagkerfið, og 40% telja það verða gott fyrir landið almennt.

Helmingur svarenda vill þjóðaratkvæði milli samnings ríkisstjórnarinnar, útgöngu án samnings eða þess að vera áfram í ESB. Ef slík atkvæðagreiðsla færi fram myndi tæpur helmingur kjósa að vera áfram í ESB, 27% myndu kjósa útgöngu án samnings, og 13% útgöngu með samningi ríkisstjórnarinnar.

Ef farið yrði í aðra umferð slíkrar kosningar, þar sem valið yrði aðeins milli áframhaldandi veru í ESB eða útgöngu án samnings, myndu tæp 60% þeirra sem afstöðu taka kjósa áframhaldandi veru í ESB, en rúm 40% þeirra kjósa samningslausa útgöngu.

Könnunin var framkvæmd í gegn um netið dagana 20. – 23. júlí og svarendur voru 1466 talsins.

Stikkorð: Brexit Theresa May