Meirihluti landsmanna, eða 50,1%, er andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Heimssýn dagana 16. til 27. júlí síðastliðinn. Fylgjendur aðildar eru 34,2% en 15,6% svöruðu að þeir væru hvorki fylgjandi né andvígir inngöngu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Andstaða við inngöngu er mest hjá þeim sem myndu kjósa stjórnarflokkana. Þannig eru 95% þeirra sem hefðu kosið Framsóknarflokkinn þegar könnunin var gerð andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið og 83% af þeim sem hefðu kosið Sjálfstæðisflokkinn. Fjörutíu prósent af stuðningsflokki Vinstri grænna eru á móti inngöngu en 33% hlynnt henni.

Stuðningur við inngöngu er mestur hjá fylgisfólki Samfylkingar, 78%, en þar eykst þó óvissan því það tvöfaldast fjöldi þeirra sem er hvorki hlynntur né andvígur inngöngu frá febrúar. Þá eru 66% af fylgisfólki Bjartrar framtíðar hlynnt inngöngu í ESB og 40% af fylgjendum Pírata.

Ef eingöngu er tekið mið af þeim sem eru annað hvort hlynnt eða andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið þá eru 59,4% andvíg aðild að ESB og 40,6% hlynnt aðild.

Alls voru 1482 manns í úrtaki í þessari netkönnun sem Gallup gerði á ofangreindu tímabili. Í hópnum var fólk af landinu öllu, 18 ára og eldri, handahófsvalið úr Viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 825, eða 55,7%.