Meirihluti íslenskra bóka sem fjallað er um í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefanda sem kemur út fyrir þessi jól er nú í fyrsta sinn frá hruni prentaður erlendis.

Fækkar titlum sem prentaðir eru innanlands um 62 frá fyrra ári, eða um 7 prósentustig, og eru þeir nú 272, sem nemur 44,8% bókanna.

Yfir helmingur síðan 2008

Árið 2015 var hlutfall þeirra bóka sem prentaðar voru innanlands 51,8%, en það hlutfall hefur ekki verið undir helmingi síðan árið 2007, en þá voru 57,2% bókanna prentaðar erlendis.

Heildarfjöldi prentaðra bókatitla í Bókatíðindunum í ár er 607 sem er um 6% færri titlar en þeir 645 titlar sem voru gefnir út fyrir ári.

Skáldverk vega upp aðra flokka

Ef hlutfallið er skoðað eftir flokkum kemur í ljós að í þremur flokkum af fjórum er meirihluti bóka prentaðar erlendis. Er stór hluti, eða 78% barnabóka prentaðar erlendis, en skýring á því er að algengt er að barnabækur eru prentaðar sameiginlega fyrir mörg lönd.

Flokkur skáldverka er sá eini þar sem meirihlutinn, eða 68% eru prentaðar innlendis, eða 124 bækur á móti 58 sem prentaðar eru erlendis. Ef hlutfallið er skoðað milli heimshluta sést að í ár eru 250 titlar prentaðir í Evrópu og 84 titlar prentaðir í Asíu.