*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 26. maí 2018 08:32

Meirihlutinn fallinn í Reykjavík

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn en meirihlutinn í borginni heldur ekki nema fá 2 menn Viðreisnar með.

Ritstjórn
Fjölga verður sætum við borgarstjórnarborðið í Reykjavík eftir kosningarnar því fulltrúum verður fjölgað úr 15 í 23.
Haraldur Jónasson

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup sem gerð var 22. til 25. maí er meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata í Reykjavík fallinn og Sjálfstæðisflokkurinn stærstur. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Fá sjö flokkar sæti í 23. sæta borgarstjórninni, það eru auk hinna fjögurra fyrrnefndu Viðreisn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins. Fjórði flokkurinn á bak við núverandi meirihluta, Björt framtíð bauð sig ekki fram í borginni, en hann býður sig fram í öðrum stærri bæjum höfuðborgarsvæðisins í samfloti, ýmist eingöngu með Viðreisn eða öðrum vinstri flokkum.

Næstu flokkar inn eru svo Sósíalistar og Framsóknarflokkurinn, en aðrir flokkar mælast með samanlagt 3,8%. Af þeim sem svöruðu sögðust sautján ætla að kjósa Kvennahreyfinguna, ellefu Alþýðufylkinguna, sex Karlalistann, fjórir Borgina okkar-Reykjavík, þrír Höfuðborgarlistann, einn Íslensku þjóðfylkinguna en enginn Frelsisflokkinn.

Skoðað eftir búsetu er stuðningur við Samfylkinguna meðal þeirra sem búa í miðbænum og vesturbæ Reykjavíkur en stuðningurinn er mestur við Sjálfstæðisflokkinn í Grafarvogi.

Skipting atkvæða skv. þjóðarpúlsi Gallup í Reykjavík er þannig:

  • 28,3% og 8 borgarfulltrúar - Sjálfstæðisflokkur, en fékk 25,7% og 4 fulltrúa 2014
  • 26% og 7 borgarfulltrúar - Samfylkingin, en fékk 31,9% og 5 fulltrúa í kosningunum 2014
  • 11% og 2 borgarfulltrúar - Píratar, en fengu 5,9% og 1 fulltrúa 2014
  • 6,2% og 1 borgarfulltrúa - Vinstri græn, en fengu 8,3% og 1 fulltrúa 2014
  • 8,7% og 2 borgarfulltrúa - Viðreisn, bauð sig ekki fram 2014
  • 5,8% og 1 borgarfulltrúi - Miðflokkurinn, bauð sig ekki fram 2014
  • 3,8% og 1 borgarfulltrúa - Flokkur fólksins, nýtt framboð
  • 3,4% og engan borgarfulltrúa - Sósíalistaflokkurinn, nýtt framboð
  • 2,9% og engan borgarfulltrúa - Framsóknarflokkurinn, en Framsókn og flugvallarvinir fengu 10,7% og 2 fulltrúa 2014