Sjálfstæðisflokkurinn gæti áfram myndað meirihluta í Kópavogi með framboði Bjartrar framtíðar, sem að þessu sinni fer sameiginlega fram með Viðreisn, í Kópavogi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur í Kópavogi með 36,4% og fimm fulltrúa í nýrri könnun Fréttablaðsins.

Samfylkingin mælist næst stærst með 20,0% og tvo bæjarfulltrúa. Loks koma Framsókn, Píratar, sameiginlega framboðið Viðreisn BF og VG, allir með nóg fylgi til að ná inn einum manni.

Miðflokkurinn og framboðið Fyrir Kópavog eru með í kringum 5% fylgi hvort um sig, sem ekki dugir fyrir bæjarfulltrúa, en Sósíalistar mælast svo með 2,3% og eru langt frá því að komast inn. Aðrir fá samanlagt 1,7%.

Hér má sjá skiptingu fylgisins samkvæmt könnuninni:

  • 36,4% og 5 bæjarfulltrúar - Sjálfstæðisflokkurinn, en fékk í kosningunum 2014 37,5% og 5 fulltrúa
  • 20,0% og 2 bæjarfulltrúa - Samfylkingin, en fékk 2014 15,3% og 2 fulltrúa
  • 8,4% og 1 bæjarfulltrúi - Framsóknarflokkurinn, en fékk 2014 11,2% og 1 fulltrúa
  • 7,4% og 1 bæjarfulltrúi - Píratar, en fengu 2014 3,9% og engan fulltrúa
  • 7,1% og 1 bæjarfulltrúa - Viðreisn BF, en Björt framtíð fékk 2014 14,5% og 2 fulltrúa
  • 6,7% og 1 bæjarfulltrúa - Vinstri græn, en fengu 2014 9,1% og 1 fulltrúa
  • 5,3% og engan bæjarfulltrúa - Miðflokkurinn
  • 4,7% og engan bæjarfulltrúa - Fyrir Kópavog
  • 2,3% og engan bæjarfulltrúa - Sósíalistaflokkurinn

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins segir eðlilegt að flokkurinn ræði við núverandi samstarfsfólk sem nú fara fram undir merkjum Viðreisnar BF ef þetta yrði niðurstaðan. Hann vill leggja áherslu á menntamál næstu fjögur árin.

Theodóra Þorsteinsdóttir sem nú leiðir lista Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, líkt og hún gerði fyrir Bjarta framtíð fyrir fjórum árum tekur undir það, og finnst réttlætanlegt að flokkarnir ræði saman að loknum kosningum.

„Að mínu mati gengur vel í Kópavogi, við erum búin með öll verkefnin okkar í málefnasamningnum frá 2014,“ segir Theodóra sem tekur í sama streng og Ármann með aukið fé í skóla bæjarins.„Við þurfum að halda áfram að reka Kópavog af ábyrgð og leggjum áherslu á að halda áfram með þau íbúalýðræðismál sem við höfum hafið hér í Kópavogi.“

Geir Þorsteinsson oddviti Miðflokksins segir flokkinn vilja lækka fasteignaskattinn og að útsvarið verði lægst á höfuðborgarsvæðinu, í 13,5%. „Bærinn var rekinn með miklum hagnaði í fyrra sem þýðir að skattar eru bara of háir. Svo ætlum við að færa fjármuni í vasa bæjarbúa og slá á frest á meðan einhverjum framkvæmdum eins og brú og borgarlínu.“

Arnþór Sigurðsson oddviti Sósíalista vill byggja í anda gömlu verkamannabústaðanna, Pétur Hrafn Steingrímsson oddviti Samfylkingarinnar vill að lóðum sé úthlutað til húsnæðissamvinnufélaga. Ómar Stefánsson oddviti Fyrir Kópavog vill kaupa íbúðir fyrir félagslega kerfið og Margrét Júlía Rafnsdóttir oddviti VG talar á svipuðum nótum vegna langs biðlista eftir félagslegu húsnæði. Einnig segir hún mikilvægt að auka hjólreiðar.

Loks talar Sigurbjörg Erla Egilsdóttir oddviti Pírata talar á svipuðum nótum um húsnæðismál, og vill flokkurinn að byggð verði skipulögð fyrir alla aldurshópa á áhrifasvæði borgarlínu. „Einnig viljum við að foreldrar fái heimgreiðslu sem nemur kostnaði við að hafa barn á leikskóla frá 12 mánaða aldri þar til það fær pláss á leikskóla,“ segir Sigurbjörg Erla.

Birkir Jón Jónsson oddviti Framsóknarflokksins leggur svo áherslu á að efla starfsumhverfi kennara í bænum og málefni eldri borgara, ásamt forgangsröðun í þágu barnafjölskyldna.