Sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí á næsta ári. Staða meirihlutans í borgarstjórn er sterk samkvæmt nýrri könnun, sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Eftir kosningarnar í maí 2014 mynduðu Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstrihreyfingin - grænt framboð (VG) og Píratar meirihluta. Flokkarnir fengu samtals 61,7% í kosningunum og 9 borgarfulltrúa af 15. Í minnihluta eru sjálfstæðismenn, sem fengu 25,7% í kosningunum og fjóra borgarfulltrúa og Framsókn og flugvallarvinir sem fengu 10,7% og tvo borgarfulltrúa.

Samkvæmt könnuninni, gerði var í maí, er meirihlutinn með nánast sama fylgi og hann hafði í kosningunum, eða samtals 61,4%. Munurinn frá því kosningunum er vel innan vikmarka. Samkvæmt þessu heldur meirihlutinn velli og vel það. Þó fylgi meirihlutans sé samanlagt nánast eins og það var í kosningunum eru töluverðar breytingar á fylgi stjórnarflokkanna samkvæmt könnuninni.

Samfylkingin á niðurleið

Fylgi Samfylkingarinnar, sem í dag er með fimm borgarfulltrúa, hefur hríðfallið en flokkurinn mælist nú með 22,3% samanborið við 31,9% í kosningunum. Svipaða sögu má segja af Bjartri framtíð, sem á tvo borgarfulltrúa í dag, en fylgi flokksins fer úr 15,6% í 4,6%.

Sá flokkur sem heldur meirihlutanum á floti er VG en flokkurinn er í dag einungis með einn borgarfulltrúa. Fylgi VG hefur ríflega tvöfaldast frá því í kosningunum. Í maí 2014 fékk flokkurinn 8,3% atkvæða en nú mælist fylgi hans 20,8%. Í könnun Gallup í desember 2014 mældist VG með 10,1% og í september 2015 með 11%. Flokkurinn hefur því verið á mikilli siglingu undanfarin misseri.

Píratar fengu 5,9% í kosningunum 2014 og einn borgarfulltrúa kjörinn. Flokkurinn hafði mikinn meðbyr eftir kosningarnar og í könnun Gallup í desember 2014 var fylgið komið í 10,6% og í september 2015 var það komið í 27,5%, sem þýddi að flokkurinn var þá orðinn sá stærsti í borginni. Heldur hefur gefið á bátinn hjá Pírötum því nú mælist fylgið 13,7%. Það er þó rúmlega tvöfalt kjörfylgi flokksins.

Stærsti flokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í borginni samkvæmt könnun Gallup. Þrátt fyrir það má segja má að fylgi flokksins sé nánast óbreytt frá því í kosningunum þegar flokkurinn mældist með 25,7%, eins og áður sagði. Í könnun Gallup núna mælist flokkurinn með 26,8% og er fylgisaukningin frá kosningum innan vikmarka, sem eru +/- 2,6%. Flokkurinn bætir aðeins við sig frá því könnuninni í september 2015 þegar hann mælidst með 23,4% en í desember 2014 mældist fylgið 25,3%.

Framsókn og flugvallarvinir mælast nú með 6,9% en flokkurinn fékk 10,7% í kosningunum 2014. Flokkurinn hefur aðeins sótt í sig veðrið frá því í könnuninni í september 2015 en þá var fylgið komið niður í 4,4%.

Framkvæmd könnunarinnar

Könnun Gallup var netkönnun, sem gerð var dagana 3. til 31. maí. Spurt var: Ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa/líklegast kjósa? Úrtakið var 2.675 Reykvíkingar, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfshópi Gallup. Fjöldi svarenda var 1.456 og þátttökuhlutfallið 54,4%.

Skoðanakönnun
Skoðanakönnun

könnun
könnun

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .