Meirihluti borgarbúa vill að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, verði borgarstjóri að loknum sveitarstjórnarkosningum, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 .

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að alls vilji 52,6% borgarbúa að Dagur verði næsti borgarstjóri Reykjavíkur. Stuðningur við Dag er meira en tvöfalt meiri en kjörfylgi Samfylkingarinnar, en um 23 prósent borgarbúa myndu kjósa Samfylkingu yrði gengið til kosninga nú.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, nýtur næstmests stuðnings til að gegna embætti borgarstjóra eftir kosningar, eða um 19,6% kjósenda vilja að hann taki við sem borgarstjóri. Stuðningur við Halldór er örlítið minni en stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn, sem mælist 23,1 prósent í könnuninni.