*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 17. október 2017 11:58

Meirihlutinn vill ekki ganga í ESB

Tæplega 60% íbúa Íslands eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið, meðan tæpur meirihluti kjósenda VG eru hlynnt inngöngu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Fleiri eru á móti því að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið heldur en eru hlynntir því, en jafnframt er mikill meirihluti andvígur aðild. Samtök fyrir aðild að sambandinu, Já, Ísland, létu Gallup gera könnunina en samkvæmt henni eru tæplega 60% andvíg inngöngu í sambandi en rétt um 40% hlynnt inngöngu að því er Morgunblaðið greinir frá.

Hins vegar er skoðað er hvort fólk sé annað hvort örugglega með eða á móti eru 72% andvíg en 26% hlynnt, en stuðningurinn hefur aukist nokkuð frá síðustu könnun Gallup. Í heildina eru 59,8% Íslendinga andvígir inngöngu en 40,2% hlynnt. Munurinn er nokkru minni þegar spurt er um afstöðu til þess að taka upp aðildarviðræður en þá sögðust 38,3% vera hlynnt því meðan rétt tæplega helmingur voru á móti, eða 47,8%.

Á sínum tíma þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sótti um aðild að sambandinu héldu forsvarsmenn hennar því fram að enn væri hægt að taka upp viðræður áður en formlegt inngöngu- og aðlögunarferli íslenskrar löggjafar að lögum ESB hæfist. Þannig var fyrirkomulagið til að mynda þegar viðræður voru um aðild Noregs að sambandinu en því var breytt fyrir inngöngu 10 ríkja í Austur Evrópu í sambandið árið 2004.

Fleiri kjósendur VG hlynntir inngöngu heldur en viðræðum við ESB

Meirihlutinn hélst gegn aðildarviðræðum eftir hópum nema meðal aldurshópsins 18 til 24 ára, þeirra sem bjuggu í Reykjavík, höfðu yfir eina milljón í mánaðarlaun og höfðu háskólapróf. Mestur stuðningur er við inngöngu meðal kjósenda Samfylkingarinnar eða 93% meðan mest andstaða er meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins eða 90%. Meðal þeirra síðarnefndu eru 78% jafnframt á móti viðræðum en einungis 10% hlynnt þeim.

Næst mest er andstaðan meðal kjósenda Framsóknarflokksins eða 83% og meðal kjósenda Flokks fólksins eða 71%, en hafa verður í huga að skoðanakönnunin var gerð 11 til 24. september síðastliðinn. Ekki var tilkynnt var um framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem fékk nafnið Miðflokkurinn fyrr en eftir könnunartímabilið, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur flokkur hans náð sama fylgi og Flokkur fólksins hafði áður.

Um 79% kjósenda Pírata eru hlynnt inngöngu en einnig eru 51% kjósenda Vinstri grænna hlynnt, þó það hlutfall sé minna þegar spurt er um hvort þeir séu hlynntir aðildarviðræðum eða 45%.