365 miðlar hafa tryggt sér sýningarréttinn á Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni í knattspyrnu 2015 til 2018. 365 miðlar munu sýna allt að átta leiki í hverri leikviku Meistaradeildarinnar og fjóra leiki í Evrópudeildinni.

Knattspyrnusamband Evrópu og 365 miðlar hafa átt samstarf í kringum Meistaradeildina í tuttugu ár og segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla, það mikið gleðiefni að samningar hafi náðst um þetta íþróttaefni næstu fjögur árin.

„Meistaradeildin hefur verið eitt af flaggskipum íþróttastöðva okkar undanfarin ár, enda eitt vinsælasta íþróttaefni í heiminum. Með þessum samningi enn eitt tímabilið erum við að festa okkur enn frekar í sessi meðal fremstu íþróttastöðva í heimi þegar kemur að framboði á íþróttaefni,“ segir Sævar Freyr.