Eitt af einkennum efnahagsþrenginga er aukin aðsókn í viðskipta- og stjórnunarnám af ýmsum toga. Umsóknum um MBA-nám hefur til að mynda fjölgaði mikið í ár um allan heim.

Samkvæmt skýrslu Graduate Management Admission Council (GMAC), sem birt var í lok sumars, hefur aðsókn í MBA-nám aukist hjá 77% þeirra háskóla sem bjóða upp á slíkt nám. Þetta er mesta aukning í fimm ár og næstmesta aukning frá því skýrslan var fyrst gefin út árið 2000. Skýrslan tekur til 273 háskóla um allan heim en 2/3 þeirra skóla eru þó í Bandaríkjunum.

David Wilson, framkvæmdastjóri GMAC, sagði í viðtali við BusinessWeek eftir útgáfu skýrslunnar að versnandi efnahagsástand skýrði þó aðeins hluta þessarar aukningar þótt vissulega skipti hún miklu máli. Mat umsækjenda á mikilvægi námsins og starfsmöguleikum eftir útskrift hefði líka mikið að segja.

Með aðsókn hjá HR

Aðalsteinn Leifsson, forstöðumaður MBA-náms við Háskólann í Reykjavík (HR), segir metaðsókn hafa verið í MBA-nám HR í ár. Hann telur þó ólíklegt að fjölgunina megi rekja til aðstæðna í efnahagslífinu þar sem MBA-nám HR sé byggt upp sem nám með vinnu.

„Umsækjendum fækkar yfirleitt við slíkar aðstæður í heiminum enda þurfa stjórnendur að takast á við erfiðar ytri aðstæður. Fjölgunin hjá okkur er vegna þess að við bjóðum upp á alþjóðlegt MBA-nám með kennurum frá mörgum af bestu viðskiptaháskólum heims á verði sem er margfalt lægra en í útlöndum,“  seir hann.

Aftur á móti má rekja mikla aukningu í annað meistaranám HR til aðstæðna í efnahagslífinu, segir Aðalsteinn.

Hann segir þann vinnumarkað sem nýútskrifuðum nemum úr grunnnámi bjóðist í ár sé ekki eins spennandi og undanfarin ár. Þar af leiðandi hugsi margir um að styrkja sig frekar í samkeppni á vinnumarkaði með meistaranámi og koma út á vinnumarkaðinn þegar aðstæður verða breyttar.

Það nýmæli verður í vetur að HR mun opna fyrir umsóknir í allar deildir skólans um áramótin, sem að öllu jöfnu hafa einungis tekið inn nýnema á haustin. Þannig vill skólinn bregðast við stöðu þeirra fjölmörgu sem vilja bæta þekkingu sína við þessar aðstæður í efnahagslífinu.

Fjölgað jafnt og þétt hjá Bifröst

María Þorgeirsdóttir, umsjónarmaður meistaranáms Háskólans á Bifröst, segir að umsóknum í meistaranám hafi fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár.

„Í ljósi aðstæðna í efnahagslífinu gerum við heilmiklar ráðstafanir til þess að geta tekið á móti fleiri meistaranemum um áramót. Boðið verður upp á staðnám í menningarstjórnun, Evrópufræðum, alþjóðaviðskiptum og lögum, auk þess sem hægt verður að hefja fjarnám í skattarétti og stjórnun heilbrigðisþjónustu."

Margir sækja um hjá HÍ þótt umsóknarfrestur sé liðinn

Jón Snorri Snorrason, forstöðumaður MBA-náms Háskóla Íslands, segir fjölmargar fyrirspurnir hafa borist í sumar og haust þótt umsóknarfrestur í MBA-námið væri liðinn.

Í kjölfar þeirra hafi nokkrir hafið MBA-nám við skólann. Fyrirspurnum um annað meistaranám fjölgaði einnig á sama tíma, sérstaklega þegar ljóst var að stefndi í fjöldauppsagnir á vinnumarkaði.

„Það er alveg ljóst að nemendur geta hafið hér nám eftir áramót og það á við um MBA-námið jafnt og aðrar meistaranámsbrautir eða grunnnám. Auk þess býður viðskiptafræðideildin fram námsleið sem er BS-nám samhliða starfi og getur t.d. hentað vel þeim sem eru með lægra starfshlutfall en áður," segir Jón.