Fólk gerir sér ferð í Melabúðina til að skoða, bæði vörurnar en ekki síður hvert annað og ekki er óalgengt að fólk klæði sig upp, eða a.m.k. líti í spegilinn áður en haldið er af stað í Melabúðina.

„Viðskiptavinir okkar hafa sagt okkur, og við finnum það sjálfir, að búðin þjónar í hugum margra svipuðu hlutverki og félagsmið- stöð,“ segir Friðrik Guðmundsson, sem rekur Melabúðina ásamt Pétri Alan bróður sínum.

„Úrvalið sem Melabúðin hefur upp á að bjóða á hverjum tíma hefur mikið að segja til um vinsældir verslunarinnar, en þjónustan – þ.e.a.s starfsfólkið sem heldur henni uppi – og öll samskipti sem eiga sér stað hér í búðinni laða líka að. Umhverfið er svolítið þannig, smæðarinnar vegna m.a., að stemningin verður náin og persónuleg. Hjá okkur standa allir saman í biðröð við kjötborð eða kassa og spjalla. Við eigum mjög fastan kjarna viðskiptavina sem koma úr hverfinu að sjálfsögðu, en svo er fólk að koma alls staðar af stór-höfuðborgarsvæðinu og jafnvel landsbyggðarfólk sem á leið í bæinn og hefur heyrt af orð- spori okkar. Þetta er mjög sérstök verslun,“ segir Friðrik.

Hann bætir því við að þeir bræð- urnir leggi mikið upp úr því að vera sjálfir sýnilegir í versluninni og að fólk geti sótt til þeirra ef þörf er á eða bara til þess að spjalla. „Það er afar mikilvægt fyrir hvern kaupmann að vera í góðu sambandi við viðskiptavinina. Við þurfum að vita það strax ef eitthvað bjátar á og má betur fara, en það er ekki síður mikilvægt að fólki líði eins og það sé velkomið hérna og að það þekki fólkið sem er að selja því matinn,“ segir hann.

Ítarlegt viðtal er við Friðrik og Pétur Alan í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .