Það er erfitt að slá krónutölu á fyrirtæki eins og Melabúðina, einkum þegar verðmætið byggir í jafnmiklum mæli á viðskiptavild í skýrustu merkingu þess orðs en ekki þeirri bókhaldslegu. Hagnaður fyrirtækisins árið 2010 nam 50 milljónum króna og árið 2011 nam hann 80 milljónum fyrir skatta.

„Fyrirtækið er skuldlaust og við höfum alltaf haft það fyrir reglu að við förum ekki í fjárfestingar eða aðra eyðslu nema við eigum fyrir henni. Við sláum ekki lán fyrir fjárfestingum eða breytingum á versluninni eða húsinu. Svo erum við alltaf með varann á og fylgjumst með öllum útgjöldum. Það er nauðsynlegt að hafa alltaf aðhald í rekstri eins og þessum,“ segir Pétur Alan Guðmundsson, sem rekur Melabúðina með Friðrik bróður sínum. Fyrir nokkrum árum hefði þessi nálgun í fyrirtækjarekstri þótt gamaldags og leiðinleg, en hún hefur án efa stuðlað að því að fyrirtækið stendur enn sterkt í dag þrátt fyrir það sem gengið hefur yfir íslenskt efnahagslíf undanfarin ár.

Greinilegt er að þeir bræður taka reksturinn alvarlega og benda stoltir á að Melabúðin hefur verið valin Framúrskarandi fyrirtæki hjá Creditinfo undanfarin þrjú ár og Fyrirtæki ársins hjá VR.

Ítarlegt viðtal er við þá Friðrik og Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .