Hugbúnaðarfyrirtækið SalesCloud hefur ráðið Melrós Dögg Eiríksdóttur í stöðu sölu- og markaðsstjóra hjá fyrirtækinu. Melrós kemur til með að hafa yfirumsjón með sölu- og markaðsmálum markaðtorgsins Yess sem fyrirtækið opnaði fyrr á árinu. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.

Melrós sem er að ljúka Bs.c gráðu í matvælafræðum hefur áður starfað sem markaðsfulltrúi hjá Loa´s Nest og kynningarfulltrúi hjá BIOEFFECT / Orf líftækni en þar sá hún um kynningu og fræðslu.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á markaðssetningu og markaðsmálum og þó menntun mín sé ekki tengd því er það svið sem ég hef einna helst lesið mig mikið til um og kynnt mér. Það má í raun segja að markaðsmál séu mitt áhugamál svo að ég er spennt og tilbúin að takast á við starfið," segir Melrós.

Yess er markaðstorg þar sem notendur geta pantað bæði veitingar og afþreyingu og í dag eru þar inni yfir 100 staðir sem hægt er að velja úr. Helgi Andri Jónsson, framkvæmdastjóri SalesCloud, sem á og hannaði lausnina segist glaður með ráðningu Melrósar og segir hana koma öfluga inn á sterkan og lifandi markað. „Hún er kjörin viðbót við okkur hér og kemur að mörgu leyti með öðruvísi sýn á hlutina. Það hlýtur að teljast gott þegar verið er að eiga við fjölbreyttan markað eins og við erum að gera," segir Helgi.