Íslenska fjártæknifyrirtækið Memento Payments hefur gert langtímasamning við bandaríska fjárfestingarsjóðinn Concierge Technologies sem mun á næstu misserum gefa út nýja bankaþjónustu sem ber nafnið Marygold & Co og verður byggð ofna á fjártæknivél Memento að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Þjónustan er markaðsett fyrir ungt fólk í San Francisco sem vill leggja áherslu á sparnað og skynsamlegar ávöxtunarleiðir.

„Það er vaxandi markhópur í Bandaríkjunum, sem og annars staðar, af ungu fólki sem vill lifa svokölluðum FIRE lífstíl (e. Financial Independence, Retire Early). Lífstíllinn gengur út á að safna og fjárfesta eins mikið og mögulegt er til þess að ná að lifa á fjármagnstekjum á seinni hluta ævinnar.  Þetta er nýstárlegur lífstíll miðað við það sem þekkist í dag en nýtur þó vaxandi vinsælda víðs vegar um heiminn,“ segir Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Memento, í tilkynningunni.

Hefðbundin bankaþjónusta er að ganga í gegnum töluverðar breytingar um allan heim og eru fjármálafyrirtækin í auknum mæli að leita til fjártæknifyrirtækja til að sjá um nýsköpun og þróun á þeirri bankaþjónustu sem viðskiptavinir gera kröfu um.

,,Við höfum fylgst með þessari þróun í fjármálaumhverfinu í þó nokkur ár og lögðum af stað með langtímaáætlun til að bregðast við henni,” segir Arnar og bætir við að þegar ný bankaþjónusta sé gefinn út þurfi margir þjónustuaðilar að koma að borðinu.

“Það kallar á mikla tæknivinnu innanhúss og mikill kostnaður sem fylgir. Við ákváðum því að bjóða viðskiptavinum háþróað umhverfi sem við köllum Fjártæknivél Memento til að tengja saman ólíkar þjónustur og greiðslumiðlunarkerfi sem má svo auðveldlega pakka saman í heildstæða þjónustu fyrir viðskiptavini og notendur. Í þessari nýju lausn vinnum við t.d. með mörgum áhugaverðum aðilum. Allt frá þekktum bandarískum banka yfir í íslenskt tæknifyrirtæki, Authenteq, sem sérhæfir sig í auðkenningarlausnum.

„Það er stórt skref fyrir Memento að gefa út bankaþjónustu á bandaríkjamarkað, markaðurinn er töluvert frábrugðinn þeim íslenska en þar gáfum við út Kass appið í samstarfi við Íslandsbanka. Við erum jafnframt sannfærð um að Memento fjártæknivélin geti sparað mörgum fyrirtækjum tíma og fjármagn við að þróa og viðhalda nýjum fjármálaþjónustum.  Með bættu aðgengi að tækni eins og þeirri sem Memento býður upp á verður einfaldara fyrir fjármálafyrirtæki að einbeita sér að því sem skiptir viðskiptavini þeirra mestu máli, t.d. að bjóða hagstæð kjör og notendavænt viðmót í stað þess að meginathyglin fari í þróun á tæknilegum innviðum.“