Uppskeruhátíð Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla var haldin í aðalstöðvum Glitnis, Kirkjusandi, í gær, föstudaginn 25. apríl. Verðlaun voru veitt fyrir besta fyrirtækið, auk annarra verðlaunaflokka. Við mat á árangri var miðað við arðsemi, viðskiptaáætlun og stjórnun, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Besta fyrirtækið var valið Memor frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. „Memor hannaði og framleiddi hugbúnað fyrir glósugerð. Dómnefnd þótti varan mjög áhugaverð og öll stjórnun og áætlanagerð til fyrirmyndar.  Með sigrinum vann Memor sér inn þátttökurétt á Evrópukeppni ungra frumkvöðla sem fer fram í Stokkhólmi í Svíþjóð í sumar. Memor hlaut einnig verðlaunin fyrir björtustu vonina en þau verðlaun eru veitt fyrir vöru eða þjónustu sem að mati dómnefndar þykir líklegust til að ná árangri í framtíðinni,” segir í tilkynninngu.