Stjórnendur hugbúnaðarfyrirtækisins Meniga lokuðu fyrir innskráningar á notendasvæði fyrirtækisins á laugardag eftir að þeir heyrðu af því á laugardag að tölvuþrjótur hefði brotist inn í tölvukerfi Vodafone, gert heimasíðuna óvirka og stolið fjölda ódulkóðaðra lykilorða. Ásgeir Ásgeirsson, tæknistjóri og einn stofnenda Meniga, segir í samtali við VB.is að opnað hafi verið fyrir eina af tveimur innskráningarleiðum viðskiptavina Meniga á sunnudag. Engar vísbendingar eru um að tölvuþrjótur hafi reynt að brjóta sér leið inn á notendasvæði Meniga.

Notendur Meniga geta komist inn á notendasvæði sín á vef fyrirtækisins eftir tveimur leiðum. Annars vegar beint af vef Meniga með netföngum og lykilorðum en hins vegar í gegnum heimabanka. Opnað var fyrir aðgang að notendasvæðum í gegnum heimabanka á sunnudag.

Geyma ekki ódulkóðuð leyniorð

Ásgeir segir að um leið og stjórnendur Meniga heyrðu af hakkinu á vef Vodafone hafi verið kannað hvort tölvuþrjótur hafi reynt að komast inn á svæði Meniga. Sú var ekki raunin. „Við gripum samt strax til aðgerða til að styrkja vefinn,“ segir hann og leggur áherslu á að Meniga hafi aldrei geymt lykilorð viðskiptavina ódulkóðuð eins og reyndin var hjá Vodafone. Notendanöfn eru geymd í gagnagrunni en lykilorðin er ekki hægt að endurvinna út frá því formi sem þau eru geymd á. Það er leið sem hann segir að allir ættu að fara.

„Nú erum við með áætlun í gangi sem felur í sér að líklega allir notendur velja sér nýtt lykilorð svo við vitum sannlega að viðkomandi er notandi,“ segir Ásgeir og tekur fram að ekki er hægt að fá nýtt lykilorð sent á netfang heldur verða þeir að nálgast notendasvæði sín úr netbönkum.