Meniga hlaut nýlega viðurkenningu að vera valið eitt af 50 leiðandi fyrirtækjum á sviði fjármálatækni í Evrópu á Fintech50 2014 ráðstefnunni sem haldin var 23.janúar. Meniga var eina fyrirtækið með heimilsbókhalds-hugbúnað sem komst á þennan lista sem undirstrikar stöðu Meniga hvað varðar markaðshlutdeild og nýsköpun í þessum geira. Fyrirtækin 50 voru valin úr 280 umsóknum. Í dómnefnd voru virtir sérfræðingar á sviði fjármálatækni.

„Helsta markmið Meniga er að tengja saman banka og viðskiptavini þeirra og þróa lausnir sem þjóna hagsmunum beggja. Þetta gerir Meniga með því að þróa verkfæri fyrir banka til hjálpa sínum viðskiptavinum til að ná mun betri yfirsýn yfir fjármál sín og betri stjórn á fjárhagslegri velferð . Ennfremur veitir Meniga bönkum öflug greiningartól sem hjálpar þeim að bjóða betri ráðgjöf og markviss tilboð,“ segir í tilkynningu frá Meniga.

Frá stofnun 2009 , hefur Meniga aðstoðað fjármálafyrirtæki í tíu löndum við að styrkja tengsl þeirra við viðskiptavini sína og veitt þeim dýrmætan hugbúnað, ráðgjöf og þjónustu. Þar á meðal eru bankar sem eru leiðandi í nýrri tækni á heimsvísu.