Norræni bankinn Swedbank tilkynnti í dag að hann hefði fjárfest 3 milljónum evra eða sem nemur 371 milljón króna í íslenska fjártæknifélaginu Meniga en bankinn hefur verið að taka í notkun hugbúnað Meniga. Swedbank vinnur nú að því að endurhanna netbankahugbúnað sinn en í nýrri útgáfu mun Meniga leika stórt hlutverk.

Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, segir aðspurður að fleiri fjárfestar úr hópi viðskiptavina hafi einnig keypt bréf í félaginu en greint verði frá því síðar hverjir þeir eru og hversu háum fjárhæðum þeir hafi fjárfest.

Um er að ræða nýjan flokk hlutabréfa en þau hafa ekki atkvæðisrétt á hluthafafundum en njóta þó að fullu efnahagslegra réttinda. Að sögn Georgs er fyrirkomulagið haft þannig til þess að tryggja sjálfstæði félagsins gagnvart viðskiptavinum. Algengt sé að bankar fjárfesti í tæknifélögum sem þeir séu í samstarfi með og Meniga telji það í hag allra að fá Swedbank og fleiri viðskiptavini inn í hluthafahópinn að því gefnu að sjálfstæði félagsins sé tryggt.