Meniga gefur út í dag nýtt snjallsímaforrit sem er ætlað að gera fólki kleift að skilja heimilisfjármálin og þannig nýta ráðstöfunarfé sitt betur. Íslendingar eru fyrstir til að njóta góðs af forritinu, en á komandi mánuðum mun fyrirtækið innleiða vöruna í fleiri löndum.

Í snjallsímaforritinu geta notendur, svo dæmi sé tekið, séð nákvæmlega hversu miklu þeir hafa eytt í matarinnkaup og í hvaða verslunum með einum smelli. Sama gildir um aðra útgjaldaflokka. Einnig sendir forritið tilkynningar til notenda með reglulegu millibili í þeim tilgangi að veita aukna innsýn í fjármálin.

„Við viljum gera alla neytendur upplýstari um fjármálin sín en nokkru sinni fyrr og hjálpa þeim að fá yfirsýn og betri upplýsingar um hvernig ólík tilboð hafa áhrif á þeirra fjárhag.“ segir Kristján F. Kristjánsson, framkvæmdastjóri íslenskra viðskipta hjá Meniga. „Við erum stolt af því að geta lagt okkar af mörkum á Íslandi þar sem fyrirtækið er stofnað og hátt í 80% starfsmanna hafa aðsetur með því að bjóða lausnina öllum neytendum að kostnaðarlausu“.