Sparisjóðasamband Finnlands (Säästöpankkilitto) hefur tekið í notkun heimilisfjármálahugbúnað frá Meniga. Lausn Meniga er nú aðgengileg í gegnum netbanka allra finnskra sparisjóða og geta um 200.000 viðskiptavinir þeirra nú notfært sér hugbúnað  Meniga sem gerir fólki kleift að fylgjast náið með eyðslu og tekjum sínum.

Meniga hefur vaxið mikið upp á síðkastið. Hjá fyrirtækinu starfa nú 27 manns bæði í Reykjavík og Stokkhólmi og er útlit fyrir að hugbúnaðurinn verði í notkun í að minnsta kosti tíu bönkum í sjö löndum um mitt næsta ár. Gangi það eftir má gera ráð fyrir að milljónir manna muni hafa aðgang að hugbúnaðarlausn fyrirtækisins. Meniga hlaut Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins á síðasta ári.

Finannsivaht - Meniga

Fram kemur í tilkynningu frá Meniga að sparisjóðasambandið kynnir hugbúnaðinn undir sínu eigin vörumerki og hefur hann sett af stað umfangsmikla auglýsingaherferð til þess að vekja athygli á þjónustunni. Heimilisfjármálahugbúnaðurinn er kynntur undir nafninu „Finannsivahti“ á finnsku og „Ekonomivakten“ á sænsku.

Þá segir í tilkynningunni að mikil eftirspurn hefur verið eftir hugbúnaði Meniga, enda vísi þróun bankaþjónustu í heiminum mjög í þá átt að bjóða viðskiptavinum upp á betri leiðir til þess að stjórna fjármálum sínum. Þannig vilja bankar flytja ráðgjafaþjónustu sína í auknum mæli á netið og jafnframt gefa viðskiptavinum sínum tæki og tól sem gagnast þeim til að spara peninga. Hugbúnaður Meniga hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og er talinn vera í fremstu röð. Hugbúnaður Meniga er nú þegar í boði hjá stóru íslensku bönkunum og Skandiabanken, sem starfar í Noregi og Svíþjóð.