Nýsköpunarfyrirtækið Meniga hlaut í morgun Vaxtarsprotann 2013 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Viggó Ásgeirssyni, einum af stofnendum fyrirtækisins, og starfsmönnum Meniga Vaxtarsprotann að viðstöddum fulltrúum sprotafyrirtækja og stuðningsaðilum atvinnulífsins í Grasagarðinum í Laugardal við hátíðlega athöfn í morgun.

Fyrirtækið nær tífaldaði sölutekjur sínar milli ára í fyrra. Fyrirtækin Controlant, Nox Medical og Iceconsult fengu einnig viðurkenningar fyrir góðan vöxt.

Vaxtarsprotinn er viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Fram kemur í tilkynningu að tilgangurinn með viðurkenningunni sé að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Þá segir í tilkynningunni að alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2011 og 2012, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í 2. deild, flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir hlutu fyrirtækin Meniga og Controlant viðurkenningu, en í 1. deild, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir fengu fyrirtækin Nox Medical og Iceconsult viðurkenningu.

Þá veittu Samtök iðnaðarins einu sprotafyrirtæki sérstaka viðurkenningu. Það var Naust Marine, sem náði þeim áfanga í fyrra að velta þess nam meira en einum milljarði króna. Þegar þessum áfanga er náð má segja að fyrirtækið sé brautskráð sem sprotafyrirtæki og tekið inn í úrvalsdeild íslenskra hátæknifyrirtækja. Áður hafa CCP, Betware og Nimblegen hlotið þessa viðurkenningu.

Samtök sprotafyrirtækja og Samtök iðnaðarins veittu við þetta tilefni einnig Steingrími J. Sigfússyni sérstaka viðurkenningu fyrir gott starf við uppbyggingu nýsköpunar- og sprotaumhverfis og tók Katrín Jakobsdóttir við henni fyrir hans hönd.