Hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur gert samning við kanadíska bankann Tangerine um notkun á útgjaldagreiningarkerfi þess. Kerfið verður aðgengilegt yfir 2 milljón viðskiptavinum kanadíska bankans, sem er með eignir upp á um 3.250 milljarða króna.

Þetta kom fram í tilkynningu í dag, en Tangerine og Meniga munu halda kynningu þar sem áhugaverðustu þættir samstarfsins verða sýndir seinna í dag á Marriott Marquis hótelinu við Times Square í New York.

Tangerine – svokallaður netbanki, eða útibúslaus banki – hefur verið með átak í gangi frá 2016 um að bæta upplifun viðskiptavina af netþjónustu bankans.

„Við erum stolt af samstarfinu við Tangerine, einn fremsta banka heims á sviði nýsköpunar og þjónustu við viðskiptavini.“ sagði Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga.