Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur lokið kaupum á öllu hlutafé í sænska fyrirtækinu Wrapp. Wrapp sérhæfir sig í sérsniðnum tilboðum til neytenda í Svíþjóð og Finnlandi og starfa með rúmlega 350 fyrirtækjum. Kaupin gera Meniga að stærsta fyrirtæki á sviði endurgreiðslutilboða á Norðurlöndunum. Meniga greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Allir starfsmenn Wrapp munu færast yfir í sameinað fyrirtæki sem mun starfa undir merkjum Meniga. Aage Reerslev, forstjóri Wrapp, mun taka við stöðu sem framkvæmdastjóri fríðindakerfa hjá Meniga. Fyrrum eigendur Wrapp verða hluthafar í Meniga. Á meðal þeirra er Nordea,  stærsti banki Norðurlanda. Nordea bætist í hóp Swedbank, UniCredit og Íslandsbanka sem hafa þegar fjárfest í Meniga.

Meniga hefur starfrækt fríðindakerfi á Íslandi síðan 2014 í samvinnu við yfir 200 fyrirtæki - í gegnum Meniga appið, Meniga.is og fríðindakerfið Fríðu í samstarfi við Íslandsbanka. Með kaupunum á Wrapp munu verslanir og fyrirtæki á Norðurlöndum nú geta boðið neytendum sérsniðin endurgreiðslutilboð og fá skýran valkost við auglýsingakerfi á borð við Facebook og Google. Auglýsingakerfið er eitt fyrsta sinnar tegundar í heiminum og býður bönkum að vinna saman að því að bjóða neytendum tilboð í gegnum snjallsímaapp og netbanka.

„Bankar eru í einstakri stöðu til að skapa aukið virði fyrir viðskiptavini sína með sérsniðnum tilboðum og verða þannig markaðsleiðandi á stafrænum auglýsingamarkaði. Neytendur eru í auknum mæli að fara fram á að gögnin þeirra séu nýtt til þess að skapa aukið virði og persónulega upplifun á þeirri vöru sem þeir nýta.

Að sama skapi vilja þeir að farið sé með gögnin þeirra á ábyrgan og gagnsæjan hátt," segir Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnenda Meniga.

„Með því sameina tækni og samstarfsaðila Meniga og Wrapp munum við bjóða einstaka notendaupplifun og sýna fram á þá ótrúlegu möguleika sem sérsniðin endurgreiðslutilboð í gegnum netbanka og bankaöpp geta verið fyrir neytendur á Norðurlöndum og enn víðar," segir Peter Åkesson, framkvæmdstjóri samstarfsverkefna og samruna hjá Nordea.

Meniga var stofnað árið 2009 og eru starfs­menn eftir samrunann um 150. Hug­búnaður Meniga hef­ur verið inn­leidd­ur hjá yfir 75 fjár­mála­stofn­un­um og er hann aðgengi­leg­ur yfir 65 millj­ónum einstaklinga í 30 lönd­um. Starfsstöðvar fyrirtækisins verða sem fyrr í Reykjavík en einnig er fyrirtækið með skrifstofur í Lundúnum, Stokkhólmi og Varsjá. Skrifstofan í Stokkhólmi hefur nú sameinast skrifstofu Wrapp þar í borg og skrifstofa Wrapp í Helsinki bætist við hópinn.