Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga ehf., sem rekur samnefndan þjónustuvef fyrir heimilisfjármál, hefur samið við Skýrr um heildarlausn í hýsingu og rekstri á vefumhverfi Meniga. Um er að ræða miðlæga hýsingu hjá Skýrr með svokallaðri sýndarvélahögun, sem gerir fyrirtækjum kleift að skala umfang hýsingar og starfsemi hratt og hnökralaust - hvort heldur um er að ræða vöxt eða tímabundinn samdrátt í einhverjum þáttum. Hýsing vefkerfa Meniga er í rekstrarumhverfi hjá Skýrr, sem er hýst, afritað og vaktað allan sólarhringinn.

Samstarf til langtíma

Í fréttatilkynningu er haft eftir Viggó Ásgeirssyni, markaðsstjóra og stofnanda Meniga: "Við vorum að leita að traustum og öflugum samstarfsaðila, sem hefði burði til að veita okkur fyrsta flokks hýsingarþjónustu og taka þátt í uppbyggingu tæknilegra grunnviða Meniga til langtíma. Á sama tíma vildum við gæta ítrustu hagkvæmni."

Einnig er haft eftir Gesti G. Gestssyni, forstjóra Skýrr í tilkynningu: „Meniga er eitt metnaðarfyllsta sprotafyrirtæki landsins í hugbúnaðariðnaði. Eigendur fyrirtækisins gera miklar kröfur til samstarfsaðila, enda er markmið þeirra að verða leiðandi þekkingarfyrirtæki á heimsvísu á sviði veflausna fyrir heimilisfjármálin. Okkur þykir vænt um samstarf okkar við þau fjölmörgu sprotafyrirtæki í þekkingariðnaði, sem eru nú að spretta úr grasi. Þessi fyrirtæki vaxa gjarnan hratt og þurfa á miklum sveigjanleika að halda í rekstri. Það er alltaf skemmtileg áskorun að veita slíkum viðskiptavinum þjónustu."