Hugbúnaðarfyrirtækið Meniga sigraði í flokki íslenskra fyrirtækja í þremur flokkum í frumkvöðlasamkeppni Norðurlanda, Nordic Start-Up Awards.

Meniga var útnefnt sprotafyrirtæki ársins og hlaut verðlaun fyrir bestan árangur á alþjóðlegum markaði. Georg Lúðvíksson, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, hlaut nafnbótina stofnandi ársins. Meniga hlaut frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins á síðasta ári og var Georg í ítarlegu viðtali í sérstöku áramótablaði Viðskiptablaðsins.

Meniga var stofnað árið 2009. Fyrirtækið framleiðir hugbúnað sem aðstoðar fólk við að koma skipulagi á fjármál sín í gegnum netbanka. Nú starfa 30 manns hjá Meniga á Íslandi og í Svíþjóð þar sem sölu- og markaðsstarf fyrirtækisins fer fram.

„Það er hvetjandi að fá viðurkenningu fyrir þann árangur sem náðst hefur hjá Meniga á undanförnum árum. Fyrirtækið hefur vaxið hratt og náð góðri fótfestu á alþjóðlegum markaði þar sem við njótum góðs orðspors og erum álitin meðal þeirra fremstu á okkar sviði.”segir Georg Lúðvíksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Meniga.

Start-Up Awards