„Heimilisfjármálalausn Meniga hefur náð mun hraðari útbreiðslu og meiri notkun en lausnir helstu keppinauta,“ segir Georg Lúvíksson, framkvæmdastjóri Meniga. Fyrirtækið hlaut verðlaun fyrir bestu tækninýjungina á ráðstefnunni Finovate Europe 2013 í London 13.-14. febrúar síðastliðnum.

Fram kemur í tilkynningu frá Meniga að Í verðlaunakynningu sinni sýndu þeir Georg og Einar Þór Gústafsson, vörustjóri Meniga, nýjustu farsímalausn fyrirtækisins sem kallast „Að kaupa eða kaupa ekki“. Markmið hennar er að hvetja fólk til að auka sparnað á kostnað skyndikaupa. „Að kaupa eða kaupa ekki“ nýtir ýmsa af kjarnavirkni Meniga kerfisins, eins og útgjaldaspá, sparnaðarmarkmið og neyslugreiningu, til að hjálpa fólki sem er við það að fara að kaupa eitthvað að taka betur ígrundaða ákvörðun.

Í tilkynningunni segir að frá upphafi hafi Meniga lagt áherslu á að hjálpa fólki að taka betri og upplýstari ákvarðanir í heimilisfjármálunum og sé það einmitt tilgangur nýju farsímalausnarinnar.

„Lausnin dregur verulega úr líkum á því að fólk kaupi eitthvað í fljótfærni með því að minna það á skemmtilegan og óvæntan hátt á mikilvægustu sparnaðarmarkmið þess. Ánægjan af því að færast nær markmiðunum sínum með því að fresta kaupum vegur þannig upp ánægjuna af því að eyða peningum strax“, segir Georg í tilkynningunni.

Nýr viðskiptavinur

Á ráðstefnunni tilkynnti Meniga jafnframt um nýjan viðskiptavin, pólska bankann BRE bank. Bankinn hlaut sömuleiðis sérstaka viðurkenningu fyrir metnaðarfyllsta þróunarverkefni á sviði netbankamála í Evrópu. Framtíðarnetbankinn mBank byggir að töluverðu leyti á náinni samþættingu við heimilisfjármálalausn Meniga og þar má auk þess nálgast tilboð og afslætti á vörum og þjónustu svo fátt eitt sé talið.+

Meniga hlaut Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2011.