Meniga
Meniga
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hlaut verðlaun fyrir tæknilausn sem þótti skara fram úr og skila viðskiptavinum banka og fjármálafyrirtækja mestum ávinningi á ráðstefnu í Austurríki á fimmtudaginnn í síðustu viku. Verðlaunin heita Banking IT-Inovation 2011 og er þetta í fyrsta skipti sem þau voru veitt.

„Við erum afar stolt af þessari miklu viðurkenningu. Þetta hefur verið frábært ár fyrir okkur en fyrr á árinu hlaut Meniga verðlaun fyrir bestu tæknilausnina á hinni virtu Finovate ráðstefnu,“ er haft eftir Dr. Hansjörg Leichsenring, umboðsmanni Meniga í Þýskalandi, Austurríki og Sviss, í fréttatilkynningu. Hann og Bruno Richle, framkvæmdastjóri Crealogix sem er samstarfsfyrirtæki Meniga í Sviss, veittu verðlaununum viðtöku.

Í fréttatilkynningunni segir að Meniga hafi vakið mikla athygli í Evrópu og víðar fyrir „framsækna og notendavæna heimilisfjármálalausn. Meniga lausnina er auðvelt að aðlaga að netbönkum ólíkra banka og veita viðskiptavinum þeirra þannig aðgang að margvíslegri virkni sem er sérhönnuð til að virkja þá betur við stjórn heimilisfjármálanna og gera fjármálin skemmtilegri og áhugaverðari."

Samstarfsverkefni háskóla

„Banking IT-Innovation “ verðlaunin eru samstarfsverkefni háskólanna í St. Gallen, Leipzig og Zürich og var dómnefnd skipuð sex óháðum fulltrúum frá fimm rannsóknarstofnunum. Við mat dómnefndar á verðlaunalausn Meniga var tekið tillit til nýnæmis, ávinnings viðskiptavina og þýðingu fyrir hinn þýskumælandi bankamarkað.