*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 17. maí 2013 17:07

Menn sitja ekki lengur sólarhringum saman í Karphúsinu

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir það geta verið púsluspil að vega saman vinnu- og fjölskyldutíma.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Hægt er að spyrja sig hvaða vit sé í kjarasamningum sem menn gera þreyttir og ósofnir, að mati Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Í samtali við DV segir hann að það geti verið mikið púsluspil að vega saman vinnutíma og fjölskyldutíma. „Maður reynir að vinna ekki um helgar og vera komin heim á skikkanlegum tíma á kvöldin. Ég reyni að nýta vinnudaginn þannig að það verði sem mest úr honum. Í nútímaheimi er þetta að verða auðveldara. Maður getur tekið upp fartölvuna þegar börnin eru farin að sofa og svo getur maður nýtt dauða tíma hér og þar þó maður sé heima.“

Hann segir að þetta verði kannski erfiðara þegar komið verður út í kjarasamninga. „Ég býst þó við að horfa upp á breytt landslag hvað varðar kjarasamningagerð – menn sitja ekki lengur sólarhringum saman í Karphúsinu. Enda getur maður spurt sig hvaða vit sé í samningum sem menn eru að gera þreyttir og ósofnir.“