„Það er alltof viðkvæmt í miðri kjaradeilu. Þetta er hins vegar mál sem rétt er að menn velti fyrir sér þegar um hægist í kjölfar verkfalla,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við Morgunblaðið um þá hugmynd að óeðlilegt sé að heilbrigðisstarfsfólk hér á landi hafi verkfallsrétt.

Hins vegar kemur fram í Fréttablaðinu að landlæknir kanni nú áhrif verkfallanna á heilbrigðiskerfið og ríkisstjórnin muni styðjast við niðurstöður hans við mat á því hvort grípa eigi til lagasetningar á verkfall BHM.

Páll segir að ástandið sé orðið háalvarlegt á Landspítalanum og áhyggjur hjá læknum og öðru fagfólki séu miklar. Hann óttist að ekki sé hægt að tryggja öryggi sjúklinga þar sem undanþágunefnd Félags geislafræðinga hafi hafnað miklu fleiri beiðnum en önnur félög.

„Það gengur ekki að yfirlæknar, forstjóri og landlæknir þurfi að grátbiðja um að fá í gegn undanþágur sem býsna augljóst er að séu nauðsynlegar til þess að tryggja öryggi sjúklinga,“ segir Páll við Morgunblaðið.

Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga, gefur lítið fyrir hugmyndir um lagasetningu og segir að viðsemjandinn þurfi fyrst að koma af alvöru að samningaborðinu áður en hann fari að setja lög. Þá hefur hún áður látið hafa eftir sér að rangt sé að geislafræðingar beri ábyrgð á afleiðingum verkfallsins .