Sigurður Atli Jónsson, forstjóri fjárfestingabankans Kviku, á langan feril að baki á íslenskum fjármálamarkaði. Sigurður Atli er hagfræðingur að mennt og hóf störf hjá Landsbréfum árið 1994. Hann stofnaði ALFA verð­ bréf árið 2004 og var framkvæmdastjóri þar fram að kaupum MP banka á fyrirtækinu árið 2011. Samhliða kaupunum var hann ráðinn forstjóri MP Banka og gegndi hann því starfi áfram eftir að fyrirtækið sameinaðist Straumi fjárfestingabanka og varð að Kviku.

Afkoma ársins hjá Kviku árið 2016 var til fyrirmyndar, hagnaður upp á tæpa tvo milljarða og 34,7% arðsemi eigin fjár. Ertu ánægður með árangurinn?

„Síðasta ár var mjög hagfellt fyrir okkur á öllum sviðum starfseminnar. Vöxtur var alls staðar og ég er mjög ánægð­ur með málefni eins og umbreytingu lánastarfseminnar og hvernig okkur tókst að gera starfsemina einfaldari, sérhæfðari og skilvirkari. Nálgunin grundvallast á okkar stefnulegri áætlun og okkur hefur tekist að byggja upp sterka fyrirtækjamenningu. Ég lít á það sem mitt meginhlutverk að byggja upp fyrirtækjamenningu Kviku og við höfum lagt mikla vinnu í það. Við höfum greint fyrirtækjamenninguna, við höfum leitað til sérfræðinga í háskólum, nýtt okkur nýjustu rannsóknir og þekkingu á þessu sviði samhliða því að innleiða stefnulega áætlun að byggja upp fyrirtækjamenninguna þannig að hún meðtaki stefnuna. Menningin verður að meðtaka stefnuna ætli hún að lifa. Menningin er ofboðslega sterkt afl og menning étur stefnu í morgunmat. Ef menningin með­ tekur ekki stefnuna, þá skiptir stefnan engu máli.

Hvað varðar reksturinn, þá er vöxtur á öllum sviðum nema einu, og það er í kostnaði. Þar hefur náðst mjög góður árangur og okkur hefur tekist að ná hagræðingu umfram þau markmið sem voru sett við samruna MP og Straums. Kostnaðargrunnur samstæðunnar er um 3,2 milljarðar, sem er milljarði lægra en sameiginlegur kostnaður MP og Straums var fyrir sameiningu og 14% lækkun á milli ára. Þetta er auðvitað grunnur að rekstrarárangri okkar. Ég er mjög ánægður með að það hafi vel tekist til þar, þótt það sé auðvitað miklu skemmtilegra að tala um tekjurnar heldur en kostnaðinn. Umfram allt er ég sem stjórnandi ánægðastur með að leiða þennan sérhæfða og sérstaka hóp af gríðarlega öflugu og metnaðarfullu starfsfólki Kviku.“

Hverjar eru helstu áskoranirnar á nýju ári?

„Inn á við er áskorunin sú að halda áfram að auka sérhæfinguna og samvirknina innanhúss, halda áfram að fylgja eftir stefnulegri áætlun, missa ekki fókus og halda áfram að efla klasasamfélagið í kringum Kviku. Það eru mestu áskoranirnar og það sem við höfum stjórn á, við einbeitum okkur að því þar sem við höfum takmarkaða stjórn á ytra umhverfinu. Í ytra umhverfinu hefur verið vöxtur en hann hefur ekki verið nægilegur í innviðunum. Það þarf að fjárfesta til að byggja upp, því annars lendum við á endastöð og náum ekki að nýta tækifærin sem eru til staðar. Ég held það sé mikilvægt að ráðast í langtímafjárfestingar í innviðum og auð­vitað gegnir hið opinbera mikilvægu hlutverki þar, fyrst og fremst út frá því að vera með stefnulega áætlun og búa til umgjörð­ ina og umhverfið. Ég er alls ekki að segja að hið opinbera eigi sjálft að fjárfesta og í raun er ekkert eðlilegt við það að hið opinbera taki að sér að bera áhættu af ýmiss konar fjárfestingum. Þær geta allt eins verið á hendi einkaaðila, en hins vegar þarf að skapa umgjörðina sem styður við uppbyggingu og sérhæfingu Íslands í þeim atvinnugreinum sem við erum sterkust í og jafnvel búa til nýjar greinar sem skapa hálaunastörf með því að „framleiða“ nýja þekkingu úr þeirri sem við höfum. Við eigum að búa til klasasamfélagið Ísland.“

Bankarnir keimlíkir því sem áður var

Ef við lítum yfir á fjármálamarkaðinn, hvernig horfa næstu ár við þér þar? Má segja að ákveðnum endurreisnarfasa sé nú lokið?

„Undanfarin ár hafa farið í að endurskipuleggja fyrirtæki, atvinnulífið og heimilin. „Endurreisn“ er ágætis nálgun. Endurreisn felst í orðanna hljóðan í því að reisa aftur eitthvað sem var til áður. Framtíðin felst samt alls ekki í því að hlutirnir verði eins og áður. Það eiga eftir að verða miklar breytingar, sem betur fer. Fjármálakerfið stendur manni auðvitað nærri og stórir hlutar af kerfinu, t.d. bankarnir þrír og Íbúðalánasjóður, voru einmitt „endurreistir“ og eru í raun keimlíkir því sem áður var. Áhættan er klárlega minni og búið er að sníða af augljósa galla sem voru til staðar þegar bankakerfið hafnaði í þroti árið 2008. Þessi fyrirtæki eiga eftir að aðlaga sig framtíðinni, sem er eitthvað sem Kvika er klárlega að gera. Það er of mikil fjölhæfing í bankakerfinu í heild sinni og það væri betra fyrir alla ef það væri meiri sérhæfing og meiri samvinna í gangi. Ríkið er í einstakri stöðu þar sem það heldur á langstærstum hluta lánakerfisins til að leggja línurnar varðandi framþróunina.“

Viðtalið við Sigurð Atla Jónsson má finna í heild sinni í nýjasta hefti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið með því að smella á Tölublöð.