Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar og tekur formlega til starfa 1. ágúst næstkomandi. Aðspurð segir hún nýja starfið leggjast mjög vel í sig. „Ég hef fylgst með starfi Hjallastefnunnar um árabil af aðdáun og því afar ánægjulegt að fá nú tækifæri til að taka þátt í starfinu.

Menntamálin eru ein af grunnstoðunum í íslensku samfélagi og starf Hjallastefnunnar á síðustu árum hefur svo sannarlega auðgað íslenskt skólastarf.“ Hún segir þann tímapunkt sem hún tekur við starfinu svo spennandi vegna mikillar vakningar sem hún skynjar í samfélaginu hvað jafnréttismál varðar. „Mér finnst áhugavert að nálgast jafnréttismál sem mikilvægt efnahagsmál fyrir samfélagið.“ Hún segir leikskóla spila þar stórt hlutverk þar sem úrræði varðandi daggæslu eru lykilatriði þegar kemur að því að foreldrar haldi aftur til vinnu að fæðingarorlofi loknu.

Ingibjörg segir sér jafnframt finnast áhugavert að fylgjast með því hvernig Hjallastefnan hefur unnið með jafnréttismál og með hvaða hætti sé unnið að því að styrkja ólíka þætti hjá strákum og stelpum til að efla alla á sem besta hátt. Ingibjörg er menntaður viðskiptafræðingur og er með meistarapróf í viðskiptafræði, stjórnun og stefnumótun frá Háskólanum á Akureyri. Hún var framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar á árunum 2003-2005 og markaðsstjóri KEA frá 2005-2008. Frá árinu 2008 hefur Ingibjörg stýrt Menningarhúsinu Hofi á Akureyri, fyrst við stefnumótun og undirbúning starfseminnar fyrir hönd Akureyrarbæjar en svo sem framkvæmdastjóri Menningarfélagsins Hofs sem rekið hefur húsið frá opnun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .