Menningarsjóður Glitnis veitti í gær styrki til ungs tónlistarfólks. Sigrún Hjálmtýsdóttir, söngkona og Birna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Glitnis afhentu styrkina.

Þetta er í sjötta skipti sem sjóðurinn styrkir ungt og efnilegt tónlistarfólk sem er að hasla sér völl í tónlistarlífinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni en að þessu sinni hlutu níu tónlistarmenn viðurkenningu sjóðsins en styrkirnir voru samtals að upphæð kr. 2.750.000.

Í tilkynningunni kemur fram að Menningarsjóður Glitnis er einn öflugasti styrktarsjóður landsins í einkaeigu og hefur verið starfræktur síðan 1988. Tilgangur hans að styðja verkefni á sviði menningar og lista, menntunar og annarra góðra málefna í því skyni að efla tengsl bankans við samfélagið. Frá því að sjóðurinn hóf að styrkja ungt tónlistarfólk árið 2003 hafa 32 ungir tónlistarmenn fengið viðurkenningu sjóðsins fyrir framúrskarandi árangur.

Þau sem hlutu viðurkenningu nú voru:

Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari. Eva Þyri er í meistaranámi í meðleik og kammertónlist við The Royal Academy of Music í London.  Hún lauk áður meistara- og einleikaranámi hjá Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum í Danmörku.

Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir, fiðluleikari. Geirþrúður útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands í vor með B. Mus. gráðu auk þess að ljúka stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík á sama tíma.  Geirþrúður stundar nú nám við Stetson University, School of Music í Flórída í Bandaríkjunum.

Hafdís Vigfúsdóttir, flautuleikari. Auk þess að taka þátt í fjölda námskeiða og sótt einkatíma erlendis í flautuleik, stundar Hafdís nú nám við Conservatoire á Rayonnement Régional de Rueil-Malmaison í París hjá Philippe Pierlot, þaðan sem hún hlaut Exellence gráðu núna í vor.  Hafdís er með B.Mus. af hljóðfærabraut Listaháskóla Íslands.

Hafdís Huld Þrastardóttir, söngkona og tónskáld/lagahöfundur. Hafdís Huld hefur lokið námi við London Centre of Contemporary Music og hlaut meðal annars hæstu einkunn fyrir lokaverkefni sitt í tónsmíðum. Hafdís hefur komið víða fram og flutt sína eigin tónlist og annarra en hún gaf út sína fyrstu sólóplötu samhliða náminu erlendis.

Hákon Bjarnason, píanóleikari. Hákon útskrifaðist í vor með B.Mus. gráðu frá Listaháskóla íslands í vor og sækir nú einkatíma í píanóleik í Berlín. Auk þess að hafa sótt fjölda masterklassa og námskeiða hefur Hákon tekið þátt í píanókeppnum Íslandsdeildar EPTA með góðum árangri.

Huld Hafsteinsdóttir, fiðluleikari. Huld stundar nám við Hochschule für Musik und Theater í Hannover, Þýskalandi og lauk Vordiplom með hæstu einkunn í febrúar á þessu ári.  Huld hefur tekið þátt í margs konar hjómsveitaverkefnum auk þess að koma fram sem einleikari.

Kristján Karl Bragason, píanóleikari . Eftir að hafa stundað nám við Listaháskóla Íslands fór Kristján utan í nám við Staatliche Hochschule für Musik und darstellende Kunst í Stuttgart, Þýskalandi, og síðar í Conservatoire Nationale de Région de Versaille í París, Frakklandi.  Kristján á að útskrifast með DEM gráðu frá CRR de Rueil-Malmaison vorið 2009 þar sem hann lærir hjá Pascal Amoyel.

Sveinn Dúa Hjörleifsson, söngvari . Sveinn mun hefja nám við Óperustúdíó Tónlistarháskóla Vínarborgar núna í haust eftir að hafa boðist að syngja á tónlistarhátíð í Dartington á Englandi fyrr í sumar. Sveinn Dúa hélt burtfararprófstónleika sína frá Söngskóla Sigurðar Demetz síðastliðið vor en hefur auk þess margoft sungið einsöng með Karlakór Reykjavíkur og haldið einsöngstónleika auk þess að syngja í Óperustúdíói Íslensku óperunnar.

Steinunn Soffía Skjenstad, söngkona .  Steinunn stundar meistaranám í söng við Sibelíusarakademíuna í Helsinki hjá Sirkku Wahlroos-Kaitila.  Auk þess að hafa B.Mus. gráðu frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Elísabetar Erlingsdóttur, hefur Steinunn sótt fjölda masterklassa og námskeið erlendis og m.a. sungið í Óperustúdíói Íslensku óperunnar.

Í umsögn stjórnar Menningarsjóðs Glitnis um styrkhafa segir: Styrkhafarnir í ár eru gríðarlega efnilegir hver á sínu sviði og hafa verið virkir í tónlistarlífi hér heima og erlendis í námi og starfi.  Það er virkilega ánægjulegt að fylgjast með þessum öfluga hópi af ungu íslensku tónlistarfólki og við væntum  mikils af þeim í framtíðinni.

Stjórn Menningarsjóðs Glitnis skipa: Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður Glitnis og jafnframt formaður sjóðsins, Sigrún Hjálmtýsdóttir söngkona, Birna Einarsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Glitnis og Már Másson forstöðumaður samskiptasviðs Glitnis.