Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að þeir sem mótmæltu afhendingu gagna úr húsleitum sérstaks
saksóknara í Banque Havilland og á fleiri stöðum eru einn stærsti eigandi Kaupþings fyrir bankahrun, helstu stjórnendur bankans og vildarviðskiptavinir hans auk Banque Havilland og Pillar Securitisation.

Þeir sem mótmæltu:

Ólafur Ólafsson stjórnarformaður Kjalars
Ólafur Ólafsson stjórnarformaður Kjalars
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Ólafur Ólafsson og 4 félög í hans eigu sem skráð eru í Danmörku og á Tortóla. Þau heita Sable Air APS (Danmörku), Marine Choice Ltd BVI, Fort Shannon Ltd BVI, Fordace Ltd BVI.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Skúli Þorvaldsson, vildarviðskiptavinur Kaupþings fyrir hrun og stærsti einstaki skuldari Kaupþings í Lúxemborg fyrir hrun. Heildarskuldir Skúla við Kaupþing í Lúxemborg námu um 73,6 milljörðum króna við bankahrun.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings.
© BIG (VB MYND/BIG)
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings. Hann hefur réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn sérstaks saksóknara á meintum brotum sem áttu sér stað innan Kaupþings fyrir bankahrun. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar.

Sigurður Einarsson
Sigurður Einarsson
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður Kaupþings. Hann hefur réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn sérstaks saksóknara á meintum brotum sem áttu sér stað innan Kaupþings fyrir bankahrun. Sérstakur saksóknari lýsti eftir Sigurði hjá Interpol þegar hann neitaði að koma til yfirheyrslu í maí 2010. Sigurður mætti til slíkrar nokkrum mánuðum síðar.

Banque Havilland. Bankinn var byggður á grunni Kaupþings í Lúxemborg eftir bankahrun og þjónustargömlu viðskiptavini hans. Er nú í eigu bresku Rowland-fjölskyldunnar. Margir Íslendingar héldu áfram að starfa fyrir bankann eftir að hann var seldur. Þeirra á meðal var Magnús Guðmundsson, sem var rekinn úr starfi forstjóra hans í maí 2010 eftir að hafa verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar sérstaks saksóknara.

Pillar Securitisation. Þrotabú Kaupþings í Lúxemborg, eða svokallaður „gamli banki“. Pillar yfirtók meðal annars hluta af lánasafni Kaupþings í Lúxemborg sem litlar eða engar líkur voru taldar á að gætu innheimst.

Egill Ágústsson og Einar Bjarni Sigurðsson. Egill er framkvæmdastjóri Íslensk Ameríska. Hann var auk þess níundi stærsti skuldari Kaupþings í Lúxemborg fyrir bankahrun með um 10,6 milljarða króna skuld við bankann. Einar Bjarni er systursonur eiginkonu Egils og viðskiptafélagi hans og býr í Lúxemborg.

Heimild:Málsskjöl frá dómstólum í Lúxemborg.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.