*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 6. desember 2007 10:11

Mennt lögð niður

Ritstjórn

Á aðalfundi Menntar fyrir stuttu var ákveðið að slíta félaginu en Mennt var samstarfsvettvangur atvinnulífs og skóla og varð níu ára í haust.  Í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins segir að meginhlutverk Menntar hafi verið að annast söfnun og miðlun upplýsinga, halda utan um tiltekin Evrópuverkefni auk þess að vera vettvangur umræðna. Félagsaðilar skiptu tugum og voru m.a. aðilar vinnumarkaðarins, háskólar, framhaldsskólar og nokkur félög og stofnanir.

Í fréttinni segir að fyrir rúmu ári hafi staða og hlutverk félagsins verið endurmetin og gerð úttekt á starfsemi og fjármálum þess. Niðurstaða þeirrar úttektar var lögð fyrir framhaldsaðalfund í janúar s.l. Þar var lagt til að Mennt skyldi vera áfram til í breyttri mynd, rekstur skorinn niður og haldnir yrðu tveir félagsfundir á ári. Formlegum rekstri skrifstofu skyldi hætt á miðju ári og verkefnum komið fyrir annars staðar. Þetta gekk ekki eftir sem skyldi. Ákvað aðalfundur því nú að leggja Mennt alfarið niður og fól stjórn að ganga frá lausum endum og slíta félaginu formlega  á fyrri hluta næsta árs