„Það gengur ekki að halda áfram á þeirri braut að menntakerfið sé skilvirkast við að búa til efni í opinbera starfsmenn.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju riti Samtaka atvinnulífsins.

Ritið var gefið út samhliða aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór síðastliðinn miðvikudag, 18. apríl. Meðal þess sem lagt er til er að námstími til stúdentsprófs verði styttur og að aukið verði samstarf á milli háskóla og atvinnulífs.

Viðskiptablaðið ræddi við Pétur Reimarsson, forstöðumann stefnumótunar- og samskiptasviðs SA, um útgáfuna. „Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta er ekki allt einfalt og ýmsir hagsmunir sem skarast. En við teljum mikilvægt að það fari fram umræða um hvert menn vilja stefna með skólakerfið í síbreytilegu þjóðfélagi þar sem menntakerfinu hefur ekki tekist að uppfylla þarfir atvinnulífsins og í raun og veru, miðað við allt brottfall nemenda úr skólanum, þá hefur þeim heldur ekki tekist að uppfylla þarfir nemendanna. Þannig það blasir við að það sé breytinga þörf.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.