Þorgerður K. Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði á Alþingi í dag að það yrði háskaleg þróun ef samþjöppun yrði algjör á fjölmiðlamarkaði. Hún sagði enn fremur að  Ríkisútvarpið gegndi lykilhlutverki á þeim  markaði.

Þetta kom fram í máli ráðherrans í umræðum um stöðuna á fjölmiðlamarkaðnum.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, var málshefjandi umræðunnar. Hann gerði þar kaup Rauðsólar, í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, á fjölmiðlaeignum 365 um helgina að umtalsefni.

Guðni spurði m.a. ráðherra hvort hún teldi  viðunandi að einn maður skyldi eiga flesta fjölmiðla.

Þorgerður sagði að fjölmiðlafyrirtæki landsins væru nú að berjast í bökkum. Hún hefði því boðað vinnu sérstakrar nefndar sem myndi m.a. skoða stöðu RÚV á auglýsingamarkaði. Sú nefnd þyrfti líka að skoða rekstrarstöðu fjölmiðla á hinum almenna markaði. Stjórnarandstaðan þyrfti að koma í inn í það verkefni.

„Meðal þess sem verður að skoða er meðal annars sú samþjöppun sem er  að eiga sér stað og í raun átti sér stað núna um helgina. Hins vegar verður líka að skoða stöðu sjálfstæðra fjölmiðla með tilliti til umsvifa Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Hvort það sé rétt að takmarka hlutverk og umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði til skemmri tíma eða til frambúðar."