Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um Menntasjóð námsmanna var samþykkt á Alþingi í dag. Lögin koma til framkvæmda þann 1. júlí næstkomandi og stefnt er að því að opna fyrir umsóknir í byrjun júlí, samkvæmt tilkynnningu á vef LÍN .

Helstu breytingar í kjölfar laganna eru að námsmenn fá 30% niðurfellingu á námslánaskuld sinni ljúki þeir námi sínu á tilskildum tíma. Greiddir verða styrkir vegna framfærslu barna í stað lána. Þá munu ábyrgðir á námslánum falla niður, svo fremi sem lánþegi hafi verið í skilum með lán sín við gildistöku laganna.

Annað nýmæli er að lánþegar geta við námslok valið hvort þeir endurgreiði námslán sín með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi.

Námsmenn geta valið um að endurgreiða námslán sín sem jafngreiðslulán eða tekjutengd lán ljúki þeir námi fyrir 40 ára aldur. Þá geta þeir jafnframt valið um hvort námslánin séu óverðtryggð eða með verðtryggðum lánakjörum. Gert er ráð fyrir að námslán skulu að fullu vera endurgreidd á því ári þegar lánþegi nær 65 ára aldri.

Vextir á námslánum munu hækka og verða breytilegir og byggja á þeim vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði að viðbættu 1,5% vaxtaálagi. Námslán eru hins vegar áfram verðtryggð á meðan á námi stendur.

„Menntasjóður námsmanna verður bylting fyrir fjölbreyttan hóp fólks sem stundar háskólanám hér á landi og fjölskyldur þessa lands. Með nýju kerfi verður fjárhagsstaða námsmanna betri og skuldastaða þeirra að námi loknu ræðst síður af fjölskylduaðstæðum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir.

„Þetta framfaraskref mun stuðla að auknu jafnrétti, gagnsæi og skilvirkni í stuðningi ríkisins við námsmenn. Auk þessa nýja kerfis höfum við unnið að því síðustu ár að bæta hag námsmanna með því að auka ráðstöfunartekjur þeirra með hækkun framfærslu og tekjuviðmiða.“