Þeir Daníel Ingvarsson og Theódór Ágúst Magnússon hafa stofnað félagið 104 ehf. Tilgangur þess er framleiðsla og sala á þverslaufum og fatnaði auk innflutnings og sölu á fatnaði og öðrum tískuvörum. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu. Þeir félagar hafa selt sérsaumaðar slaufur síðan í lok síðasta árs, bæði á internetinu og í verslunum Gallerí 17. „Það hefur gengið mjög, mjög vel,“ segir Daníel og þótti þeim því tilefni til að stíga næsta skref og stofna fyrirtæki.

„Þetta er í rauninni gömul hugmynd sem við ákváðum svo að prófa,“ segir Daníel. „Við ætluðum bara að gera þetta fyrir okkur sjálfa og einhverja af félögum okkar. Við settum þetta á Facebook svo að strákarnir gætu séð það sem við vorum að gera. En þá byrjaði fólk allt í einu að senda okkur línu og biðja um að fá að kaupa slaufur,“ segir hann um upphafið á slaufusölunni. Bæði Daníel og Theódór hafa fulla atvinnu af slaufuframleiðslunni í sumar. Merkið heitir 104 slaufur og selur fyrst og fremst forhnýttar slaufursem eru hannaðar og saumaðar af þeim Daníel og Theódóri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.