*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 5. september 2018 11:53

Menntuðum leikskólakennurum fækkar

Alls störfuðu 6.018 í leikskólum í desember 2017 og hafði fjölgað um 111 (1,9%) frá fyrra ári. Stöðugildum starfsmanna fjölgaði einnig um 1,9% og voru 5.289.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Í desember 2017 sóttu rúmlega 19 þúsund börn leikskóla á Íslandi. Hlutfall barna sem sækir leikskóla er óbreytt frá fyrra ári eða 87%, þegar litið er til 1-5 ára barna. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. 

Alls sækja 97% 3-5 ára barna leikskóla, 95% tveggja ára barna og 47% eins árs barna. Miklu munar á hlutfalli eins árs barna á leikskólum eftir landsvæðum. Á Austurlandi sækja 69% eins árs barna leikskóla og 68% á Vestfjörðum. Hlutfall eins árs barna á leikskólum er lægst á Suðurnesjum, 11%.

Rúmlega 1.800 börn njóta sérstaks stuðnings

Í desember 2017 nutu 1.836 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, eða 9,7% leikskólabarna. Hlutfall barna sem njóta stuðnings er óbreytt frá árinu 2016. Eins og undanfarin ár er fleiri drengir í þessum hópi og nutu 1.174 drengir og 662 stúlkur stuðnings árið 2017.

Menntuðum leikskólakennurum fækkar

Alls störfuðu 6.018 í leikskólum í desember 2017 og hafði fjölgað um 111 (1,9%) frá fyrra ári. Stöðugildum starfsmanna fjölgaði einnig um 1,9% og voru 5.289.

Í desember 2017 störfuðu 1.622 leikskólakennarar í leikskólum á Íslandi, eða 29,2% starfsmanna við uppeldi og menntun barna, og hefur fækkað um 338 frá árinu 2013 þegar þeir voru flestir. Starfsmenn sem hafa lokið annarri uppeldismenntun, s.s. grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi voru 1.105 talsins. Ófaglærðir starfsmenn voru rúmlega helmingur (50,9%) starfsmanna við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2017.

Aldur leikskólakennara fer hækkandi

Aldursskipting leikskólakennara hefur verið að breytast á þann hátt að kennarar sem eru 50 ára og eldri verða sífellt stærri hluti kennarahópsins. Árið 2017 voru þeir rúm 42% leikskólakennara en voru 26% 10 árum áður. Að sama skapi hefur leikskólakennurum undir fimmtugu fækkað, ekki aðeins þegar litið er á hlutfallstölur heldur líka þegar fjöldatölur eru skoðaðar. Tæplega 900 leikskólakennarar á aldrinum 30-49 ára störfuðu í leikskólum árið 2017 en þeir voru 1.142 þegar þeir voru flestir árið 2009.

Rúmlega 250 leikskólar

Í desember 2017 voru 254 leikskólar starfandi, óbreyttur fjöldi frá árinu áður. Sveitarfélögin ráku 212 leikskóla og fækkaði þeim um einn frá fyrra ári en 42 leikskólar voru reknir af öðrum aðilum, einum fleiri en árið áður. Flestir voru leikskólarnir árið 2009, þegar 282 leikskólar störfuðu á landinu

Stikkorð: Hagstofa Íslands