Framhaldsnám í háskóla, masters- eða doktorspróf, skilar tæplega þriðjungi hærri launum en grunnskólapróf. Hins vegar benda niðurstöður launakannana VR undanfarinna ára til þess að nám skili minni hækkun í launaumslagið í dag en það gerði fyrir fimm árum, að teknu tilliti til annarra þátta sem hafa áhrif á launin. Formaður VR hefur áhyggjur af þessari þróun og vill binda frekar í kjarasamninga að aukin menntun skili hærri launum.

Launakannanir síðustu ára sýna að ávinningur lengri skólagöngu er minni nú en áður. Árið 2009 voru þeir sem lokið höfðu masters- eða doktorsprófi með 40% hærri laun en þeir sem luku námi eftir grunnskóla. Samkvæmt launakönnun VR fyrir árið 2014 er þetta hlutfall komið niður í 30%. Þá er búið að taka tillit til annarra þátta sem áhrif hafa á laun, svo sem starfsaldurs, starfsstéttar, mannaforráða, atvinnugreinar, vinnutíma, kyns og aldurs.

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segist hafa áhyggjur af því að ávinningur launþega af aukinni menntun sé að minnka. „Þetta er að gerast þrátt fyrir að hlutfall þeirra sem eru með háskólapróf sé að aukast. Árið 2006 var um fimmtungur þátttakenda í launakönnuninni með háskólapróf en í ár var um þriðjungur með slíka menntun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .