Friðrik Friðriksson
Friðrik Friðriksson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Friðrik Friðriksson, fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, var fyrir helgi kjörinn stjórnarformaður hugbúnaðarfélagsins Mentis Cura AS. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur verið hluthafi í Mentis Cura frá árinu 2009 en félagið er í dag í 70% eigu Norðmanna.

Mentis Cura var stofnað á Íslandi árið 2004 af Kristni Johnsen, vísindamanni og frumkvöðli. Rannsóknar- og þróunarstarf félagsins fer fram á Íslandi, en höfuðstöðvar félagsins hafa verið í Osló í Noregi frá 2016.

Mentis Cura framleiðir hugbúnað sem nýtir gervigreind og EEG-heilarit til greiningar á heila- og miðtaugakerfissjúkdómum, svo sem Alzheimer og Huntington-sjúkdóms. Þá sér félagið einnig um greiningar á ADHD sjúkdómnum með sérstökum hugbúnaði.

Friðrik á fjölbreyttan starfsferil að baki og starfaði lengst af við framkvæmdastjórn í fyrirtækjum, m.a. IBM á Íslandi, Skrifstofuvélum Sund og Skjánum ehf. Hann hefur einnig unnið við endurskipulagningu fyrirtækja, samruna og sölu þeirra ásamt almennri rekstrarráðgjöf.

Þá hefur Friðrik einnig setið í ýmsum stjórnum, meðal annars sem stjórnarformaður CCP hf., stjórnarformaður MATÍS ohf. og situr nú í stjórnum fjölmargra félaga á borð við Pay Analytics, Nordic Visual, MedEye, Expeda, auk Mentis Cura.

Friðrik hefur lokið viðskiptafræðiprófi Cand Oecon frá Háskóla Íslands, MA prófi í hagfræði frá Virgina Tech og MBA prófi frá sama háskóla.

Auk Friðriks voru kjörin í stjórn þau Audun Abelsnes, Joachim Paasche, Jan Fikkan og Joanne Hackett sem kemur ný inn í stjórnina.