*

mánudagur, 1. mars 2021
Fólk 21. apríl 2020 09:31

Mentis Cura fær nýjan formann stjórnar

Friðrik Friðriksson hefur verið kjörinn stjórnarformaður nýsköpunarfyrirtækisins Mentis Cura sem Kristinn Johnsen stofnaði.

Ritstjórn
Stofnandi Mentis Cura er Kristinn Johnsen en að neðan má sjá Friðrik Friðriksson sem tekið hefur við sem stjórnarformaður hjá félaginu.
Axel Jón Fjeldsted

Friðrik Friðriksson, fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, var fyrir helgi kjörinn stjórnarformaður hugbúnaðarfélagsins Mentis Cura AS. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur verið hluthafi í Mentis Cura frá árinu 2009 en félagið er í dag í 70% eigu Norðmanna.

Mentis Cura var stofnað á Íslandi árið 2004 af Kristni Johnsen, vísindamanni og frumkvöðli. Rannsóknar- og þróunarstarf félagsins fer fram á Íslandi, en höfuðstöðvar félagsins hafa verið í Osló í Noregi frá 2016.

Mentis Cura framleiðir hugbúnað sem nýtir gervigreind og EEG-heilarit til greiningar á heila- og miðtaugakerfissjúkdómum, svo sem Alzheimer og Huntington-sjúkdóms. Þá sér félagið einnig um greiningar á ADHD sjúkdómnum með sérstökum hugbúnaði.

Friðrik á fjölbreyttan starfsferil að baki og starfaði lengst af við framkvæmdastjórn í fyrirtækjum, m.a. IBM á Íslandi, Skrifstofuvélum Sund og Skjánum ehf. Hann hefur einnig unnið við endurskipulagningu fyrirtækja, samruna og sölu þeirra ásamt almennri rekstrarráðgjöf.

Þá hefur Friðrik einnig setið í ýmsum stjórnum, meðal annars sem stjórnarformaður CCP hf., stjórnarformaður MATÍS ohf. og situr nú í stjórnum fjölmargra félaga á borð við Pay Analytics, Nordic Visual, MedEye, Expeda, auk Mentis Cura.

Friðrik hefur lokið viðskiptafræðiprófi Cand Oecon frá Háskóla Íslands, MA prófi í hagfræði frá Virgina Tech og MBA prófi frá sama háskóla.

Auk Friðriks voru kjörin í stjórn þau Audun Abelsnes, Joachim Paasche, Jan Fikkan og Joanne Hackett sem kemur ný inn í stjórnina.