Hugbúnaðarfyrirtækið Mentis Cura á í samningaviðræðum við framleiðanda heilamælingatækja í Bandaríkjunum sem vill fá að nota búnað frá félaginu í sinn tækjabúnað. Að sögn Kristins Johnsen, framkvæmdastjóra félagsins, eru þessar viðræður á lokastigi.

Í frétt í Viðskiptablaðinu kemur fram að ef um semst myndi Mentis Cura útvega hugbúnað fyrir fyrirtækið sem líklega hefði í för með sér einkarétt til handa bandaríska fyrirtækinu. Það hefur flækt viðræðurnar að sögn Kristins enda vilja þeir ekki selja slíkan einkarétt frá sér nema að vel athuguðu máli.

Mentis Cura er í dag átta manna fyrirtæki sem er með starfsemi sína úti á Granda. Hér er fyrst og fremst um að ræða framleiðslu á hugbúnaði sem hægt er að tengja við tæki sem þegar eru í notkun. Búnaðurinn sem hér um ræðir notar mælingar á heilabylgjum til að greina Alzheimer í öldruðu fólki og ofvirkni í börnum. Mentis Cura var stofnað árið 2004 en byggði á verkefni sem hafði verið í gangi innan Lyfjaþróunar síðan árið 2000.

Sjá nánar í síðasta Viðskiptablaði