Mentor ehf. hlaut Vaxtarsprotann 2009, en fyrirtækið fékk auk Naust Marine hf., Saga Medica ehf. og Gogogic ehf. viðurkenningu samtaka iðnaðarins/SSP, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknamiðstöðvar Íslands fyrir að vera þau sprotafyrirtæki sem sýndu mesta veltuaukningu á síðasta ári. Þess má geta að Mentor ehf. fékk einnig Vaxtarsprotann á síðasta ári.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra afhenti verðlaunin, en honum voru sjálfum óvænt veitt viðurkenning af Samtökum sprotafyrirtækja fyrir margháttaðan stuðning og við að greiða götu sprotafyrirtækja í landinu.

Mentor ehf. og Naust Marine hf. fengu viðurkenningu í hópi fyrir tækja með veltu á milli 100 og 1.000 milljónir. Mentor er þekkingarfyrirtæki sem hefur það hlutverk að leggja skólasamfélaginu til lausnir, þekkingu og þjónustu til aukins árangurs. Miða lausnir fyrirtækisins í Mentor.is kerfinu að því að gera samskipti innan skóla skilvirkari og upplýsingagjöf til foreldra, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila öflugri.

Mentor er í dag 26 manna fyrirtæki sem stofnað var árið 1990. Upplýsingakerfið Mentor.is er þróað á Íslandi en fyrirtækið starfar einnig í Svíþjóð undir nafninu InfoMentor P.O.D.B. Mentor hefur einnig stigið ákveðin skref í Englandi og nú síðasta í Sviss.

Í hópi sprotafyrirtækja með undir 100 milljóna króna veltu fengu Saga Medica ehf. og Gogogic ehf. einnig viðurkenningar en það síðar nefnda er tölvuleikjafyrirtæki sem er nú einnig að fá viðurkenningu á sínu sviði í Svíþjóð.

Við val á fyrirtækjunum liggur einfalt mat sem byggt er á veltutölum fyrirtækja þar sem nýsköpunar og þróunarstarfsemi nemur að minnsta kosti 10% af veltu. Það fyrirtæki sem uppfyllir þessi skilyrði og vex hraðast milli ára hlýtur svo Vaxtarsprotann. Tvö fyrirtæki úr hópi félaga með veltu á bilinu 10 til 100 milljónir króna fá viðurkenning hverju sinni og tvö með veltu frá 100 milljónum upp í 1.000 milljónir króna. Þegar fyrirtæki eru farin að velta yfir 1.000 milljónum eru þau útskrifuð úr hópi sprotafyrirtækja.